top of page

Ef ekki við, hver þá?


Click here to go to the original article in Icelandic Fréttablaðið newspaper. Stafrænt ofbeldi er orðið hluti af hversdeginum okkar. Það birtist með ólíkum hætti, til dæmis í formi hótana, áreitni, hatursáróðurs eða dreifingar á viðkvæmu myndefni án samþykkis. Á Íslandi gefur fimmti hver skjólstæðingur Kvennaathvarfsins upp stafrænt ofbeldi sem ástæðu komu sinnar. Í Danmörku forðast 59% aðspurðra að taka þátt í opinberri umræðu á Facebook vegna vaxandi hörku, netníðs og persónuárása. Í Svíþjóð hefur sumt stjórnmálafólk fengið svo mikið af hótunum á netinu að þau þora ekki að setjast niður í almenningssamgöngum, því ef ráðist yrði á þau væri auðveldara að taka til fótanna úr uppréttri stöðu. Í öllum norrænum ríkjum er hatri og hótunum beint að fjölmiðlafólki í vaxandi mæli og stór hluti þeirra viðurkennir að það hefur áhrif á efnið sem það kýs að fjalla um. Allt er þetta að gerast á svæði sem er talið fremst í heimi á sviði lýðræðis, jafnréttis og umburðarlyndis: Norðurlöndunum.


Hótanir, áreitni og nektarmyndir


Ofbeldi á netinu hefur áhrif á okkur öll, en sumir samfélagshópar eru beittir því í meira mæli en aðrir, starfs síns vegna eða sökum persónueinkenna. Fólk sem tilheyrir minnihlutahópum vegna uppruna síns, húðlitar, trúarbragða, kynhneigðar, kyngervis eða fötlunar er í aukinni hættu á að vera beitt ofbeldi á netinu en aðrir. Sérstaklega ef starf þeirra felur í sér að taka þátt í umræðu um málefni líðandi stundar. Tölfræðin sýnir að konur sem taka þátt í samfélagsumræðu á netinu eru líklegri til þess að verða fyrir áreitni, hótunum og ofbeldi sem á ekki síst rætur í kyni þeirra. Það er þó ekki aðeins sótt að tjáningarfrelsi kvenna á netinu, það sama á við um friðhelgi einkalífsins. Eitt algengasta form stafræns ofbeldis er dreifing nektarmynda án samþykkis, en slík brot beinast í verulegum fjölda tilvika að konum og stúlkum. Frumvarp dómsmálaráðherra um kynferðislega friðhelgi, sem nú er til meðferðar á Alþingi, er í þessu ljósi mikið fagnaðarefni.

Ljóst er að stafrænt ofbeldi hefur afleiðingar fyrir einstaklinginn, því það takmarkar getu fólks til að geta um frjálst höfuð strokið á netinu og lifað lífinu á stafrænum tímum. Afleiðingarnar eru þó ekki síður alvarlegar fyrir samfélagið í heild, því ofbeldið þaggar niður ákveðnar raddir, ógnar tjáningarfrelsinu og grefur þar með undan sjálfu lýðræðinu.


Hinstu kveðjustundir á Zoom


Heimsfaraldurinn sem nú stendur yfir hefur undirstrikað að internetið er órjúfanlegur hluti tilverunnar. Mörg okkar vinnum að heiman með aðstoð nettengingar, samhliða því sem læknisþjónusta, verslun og bankaþjónusta er orðin að miklu leyti stafræn. Þá hafa ferðatakmarkanir, félagsforðun og sóttkví gert að verkum að netið er helsti - og stundum eini - samskiptavettvangurinn. Á dvalarheimili aldraðra kveðja ættarhöfðingjar afkomendur sína í hinsta sinn í videóspjalli og mörg okkar munum verja jólunum með ástvini á skjá, í stað líkamlegrar nærveru og aðstoðar við uppvaskið. Þótt flest okkar myndum eflaust velja áþreifanlegan félagsskap fram yfir stafræn samskipti í einkalífinu verður ekki framhjá því litið að internetið hefur haft afgerandi áhrif á efnahag heimsins árið 2020 og bjargað óteljandi störfum frá glötun.

Norðurlöndin eru auðug af samtökum og fólki sem vinnur ötullega í þágu kvenna og minnihlutahópa. Hér er líka verið að vinna þýðingarmikið starf til að standa vörð um netið og stafræn réttindi þeirra 26 milljón íbúa sem búa á Norðurlöndunum. Okkur þykir verðugt verkefni að sameina þessar hugsjónir. Þess vegna höfum við stofnað NORDREF, the Nordic Digital Rights and Equality Foundation. Markmið okkar er að vinna í þágu jafnréttis og lýðræðis á Norðurlöndunum með því að þróa og koma á framfæri þekkingu um stafræn réttindi og skyldur, samhliða því að standa vörð um rétt fólks til að taka þátt í umræðum og öðrum athöfnum á netinu.


Norrænum forréttindum fylgir ábyrgð


Jafnrétti er eitt af undirstöðuatriðunum í sjálfsmynd Norðurlandaþjóðanna. Rík áhersla er jafnframt lögð á að styðja og vernda tjáningarfrelsið. Norrænt samstarf er elsta alþjóðasamstarfið sinnar tegundar í heiminum og markmið þess eru háleit. Í framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar 2030 er stefnt að því að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði veraldar á næstu tíu árum, þar sem hagvöxtur byggir meðal annars á stafrænni samþættingu og jafnrétti.

Við viljum leggja okkar af mörkum til að þessu markmiði verði náð. Stofnendur NORDREF hafa unnið árum saman að stafrænum réttindum í heimalöndum sínum. Við höfum menntað tugþúsundir um stafrænt ofbeldi, samið lagafrumvörp, gefið út bækur og greinar um netofbeldi og internetið sem lýðræðislegan vettvang, ásamt því að vinna með samfélagsmiðlarisum og öðrum valdhöfum að tæknilegum lausnum.

Það eru forréttindi að búa á Norðurlöndunum, sem eru leiðandi á heimsvísu hvað lýðræði og jafnrétti snertir. Að auki erum við eitt netvæddasta svæði jarðar. Við höfum því allt sem krefst til að verða alþjóðleg fyrirmynd á sviði stafrænna réttinda og tryggja að internetið verði vettvangur þar sem allir sitja við sama borð og njóta sömu tækifæra til að vaxa í leik og starfi.

Ef ekki við, hver þá?



Emma Holten

María Rún Bjarnadóttir

Milla Mölgaard

Moa Bladini

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir,

stofnendur NORDREF

18 views0 comments
bottom of page