Börn og fullorðnir sem hafa orðið fyrir barðinu á stafrænu kynferðisofbeldi og barnaníð gjalda fyrir það alla ævi. Fórnarlömb lýsa því að heilu bæjarfélögin hafi fyrirvaralaust fordæmt þau og að beðið væri um nektarmyndir af börnum eftir að þau hefðu verið jörðuð. Engin ákvæði í hegningarlögum ná utan um þessi brot. Málum sem varða stafrænt kynferðisofbeldi og barnaníð hefur fjölgað gríðarlega á borði lögreglu á síðustu árum. Lögregla segir rannsóknir hafa sýnt fram á að eitt af hverjum fimm börnum sendi nektarmyndir af sjálfum sér, sum hver ekki nema sjö ára gömul. Þegar kemur að því að sækja einstaklinga til saka fyrir að dreifa ólöglegu efni á borð við nektarmyndir af börnum og fullorðnum hefur hins vegar nánast ekkert breyst á síðustu áratugum. Engar greinar í hegningarlögum eru til þess fallnar að ná utan um stafræn brot og blasa gapandi glufur milli ákvæða um hámarksrefsingu fyrir slík brot. „Afleiðingar svona brota hafa í flestum tilvikum einungis haft alvarlegar afleiðingar fyrir þolendur, ekki gerendur,“ segir lögfræðingurinn María Rún Bjarnardóttir, höfundur nýs frumvarps um kynferðislega friðhelgi. Hámarksrefsing sé of lág og úrræði allt of fá. Allt bæjarfélagið vissi Rebekka Ellen þekkir það á eigin skinni en þegar hún var þrettán ára sendi hún nektarmyndir af sér á jafnaldra sinn í gegnum Snapchat. Skömmu síðar komst hún að því að drengurinn hafði deilt myndunum með félögum sínum og fréttirnar voru ekki lengi að berast um litla bæjarfélagið þar sem hún var búsett. „Allir sem ég þekkti höfðu frétt af þessu, bæði innan skólans og utan,“ segir Rebekka, sem kom nýlega fram í þætti Kompás. „Ég hélt að ég gæti byrjað upp á nýtt þar og að þessi reynsla væri grafin og gleymd.“ Hún kenndi sjálfri sér um það sem hafði komið fyrir og bar harm sinn í hljóði í þrjú ár. Í tilraun til að komast undan orðrómunum og pískrinu í bæjarfélaginu flutti hún til föður síns sem bjó í Danmörku. Þar dvaldi hún í um eitt ár áður en hún flutti aftur til Íslands og hóf nám í menntaskóla í Reykjavík. „Ég hélt að ég gæti byrjað upp á nýtt þar og að þessi reynsla væri grafin og gleymd.“ Allt kom fyrir ekki. Myndirnar fóru aftur í dreifingu og höfðu nú dúkkað upp á klámsíðum og síðum á borð við Chansluts. „Það voru ótrúlega mikil vonbrigði að uppgötva að það væri ekki hægt að komast undan þessu og þurfa að upplifa hvað krakkar á þessum aldri geta verið andstyggilegir.“ Rebekka Ellen var þrettán ára þegar nektarmyndum af henni var dreift í bæjarfélaginu þar sem hún bjó. Fréttablaðið/Ernir Enginn rétti út hjálparhönd Á þessum tíma hafði Rebekka enn ekki sagt neinum frá því sem henti eða hlotið neina aðstoð. Þegar myndirnar voru settar á klámsíðu fengu foreldrar hennar fyrst veður af málinu. „Mín upplifun var að foreldrar mínir hafi verið síðastir til að vita þetta í bæjarfélaginu,“ segir Rebekka. Aðrir foreldrar í skólanum höfðu heyrt af málinu en ekkert sagt. „Þeir foreldrar hefðu átt að hafa samband við foreldra mína, skóla eða yfirvöld. Ef ég set mig í spor þrettán ára Rebekku þá finnst mér að einhver hefði átt að vera nógu fullorðin til að koma mér til bjargar, en það gerðist ekki.“ Hún segir að slúður berist gjarnan síðast til þeirra sem það fjallar um, ekki síst í litlum bæjarfélögum. „Það var þannig í þessu tilviki og ég skil bara ekki að engum hafi dottið í hug að bregðast við.“ Þegar foreldrar Rebekku komust að því sem hafði verið að gerast fóru loks hjólin að snúast. Rebekka hlaut viðeigandi hjálp hjá sálfræðingi og farið var með málið til lögreglu. „Ég fór með lögmanninum mínum til lögreglunnar í skýrslutöku og ég man að strákurinn sem dreifði myndunum fór í skýrslutöku á undan mér.“ „Einhver hefði átt að vera nógu fullorðin til að koma mér til bjargar, en það gerðist ekki.“ Ekkert hægt að gera Að lokinni skýrslutöku tók við margra mánaða bið. Á endanum komst lögregla að þeirri niðurstöðu að ekki yrði gefin út ákæra. „Ég held að við höfum kært þá niðurstöðu tvisvar en það fór aldrei neitt lengra og engin ákæra var gefin út,“ segir Rebekka alvarleg. „Það er rosalega erfitt að ná svona málum í gegn og í mínu tilviki var ekkert hægt að gera.“ „Þremur árum eftir að ég fór í skýrslutöku ákvað ég að ég hafi gert mitt besta og hætti.“ Aldrei hafi neitt komið út úr málinu. „Það var líklegast vegna þess að það eru ekki til nein ákvæði í hegningarlögum sem falla undir svona mál.“ Í einhverjum tilvikum hafi álíka mál verið felld undir blygðunarsemi eða kynferðislega áreitni en það gerist sjaldan að ákæra sé gefin út. „Það eru ekki til nein lög um þetta.“ Engin ákæra var gefin út í máli Rebekku. Fréttablaðið/Getty Myndirnar enn á flakki Ekki hefur heldur tekist að ná myndunum af Rebekku niður. „Þegar myndirnar fóru inn á klámsíðu leituðum við til lögreglu til að láta taka þær niður.“ Í ljós kom að síðan sem hýsti myndirnar var með erlenda IP tölu og hvorki var hægt að taka síðuna niður né komast að því hvaða einstaklingar voru að biðja um og dreifa myndunum. „Ég veit að lögreglan hefur vitað af þessari síðu í mörg ár og hefur reynt að gera eitthvað í þessu en það virðist ekkert ganga.“ „Maður hefur enga stjórn á hlutunum og það er svo óþægilegt að vita ekkert hvaða manneskjur standa þarna að baki." Það hafi verið erfitt að sætta sig við að myndirnar yrðu alltaf þarna. „Á tímabili upplifði ég kvíða á hverjum degi um að einhver myndi senda eitthvað á mig eða segja eitthvað um þetta.“ Iðulega fékk hún send skilaboð um að myndir af henni væru á hinni eða þessari síðunni eða að einhver væri að óska eftir þeim. „Maður hefur enga stjórn á hlutunum og það er svo óþægilegt að vita ekkert hvaða manneskjur standa þarna að baki. Hverjir eru að biðja um þessar myndir?“ „Ég vildi óska þess að umræðan væri opnari og að það væru einhver úrræði í boði." Fréttablaðið/Ernir Sjö ára börn sendi nektarmyndir Rebekka segir að það vanti sárlega forvörn um málefni af þessu tagi. „Rannsóknir sýna að allt niður í sjö ára börn séu að senda nektarmyndir af sér þannig að þetta er samtal sem þarf að eiga sér stað mjög snemma.“ Allir geti lent í slíkri reynslu. „Ég vildi óska þess að umræðan væri opnari og að það væru einhver úrræði í boði. Ég hvet alla til að tala um þetta og leita einhvers, ráðgjafa í skóla, foreldra, vinkonu eða bara einhvers sem maður treystir til að hjálpa manni“ „Markmið mitt er ekki að reyna að láta fólk hætta að senda nektarmyndir, það mun aldrei gerast." Sjálf stefnir hún að því að búa til fræðslu fyrir börn og foreldra í grunnskólum og félagsmiðstöðvum. „Markmið mitt er ekki að reyna að láta fólk hætta að senda nektarmyndir, það mun aldrei gerast, heldur bara að það sé meðvitað um hvað geti gerst og afleiðingarnar sem því miður fylgja manni út lífið núna.“Hulda Hólmkelsdóttir segir bestu vinkonu sína, Tinnu, hafa þurft að ganga í gegnum skelfilegar þrekraunir. Mynd/Aðsend
Stöðug ógn Hulda Hólmkelsdóttir segir sögu bestu vinkonu sinnar, Tinnu Ingólfsdóttur heitinnar, vera dæmi um hversu ósvífin eftirspurn sé eftir nektarmyndum af ungum stúlkum. Árið 2014 talaði Tinna í fyrsta skipti opinberlega um stafræna kynferðisofbeldið sem hún hafði orðið fyrir. Mánuði síðar var hún bráðkvödd á heimili sínu. „Ég hef verið aðstandandi einstaklinga sem hafa orðið fyrir nauðgun en það hefur ekkert breytt lífi mínu jafn mikið og að vera aðstandandi Tinnu í gegnum þar sem hún varð fyrir í sínu lífi,“ útskýrir Hulda. „Stafrænt ofbeldi er stöðug ógn. Það er hvergi skjól frá því og einhver getur fyrirvaralaust rekist á þetta hvar og hvenær sem er og sent á þig.“
„Það var ennþá verið að biðja um nektarmyndir af henni eftir að við vorum búin að jarða hana.“
Báðu um myndir eftir jarðarförina Þessa tilfinningu upplifði Hulda sjálf eftir andlát Tinnu. „Það næsta sem ég get komist að því að setja mig í fótspor hennar er þegar ég fékk ábendingu um að það væri ennþá verið að biðja um nektarmyndir af henni eftir að við vorum búin að jarða hana.“ „Ég fékk ábendingu um að það væri ennþá verið að biðja um nektarmyndir af henni eftir að við vorum búin að jarða hana.“ Fjallað var um andlát Tinnu í fjölmiðlum enda hafði hún nýlega vakið athygli fyrir grein sem hún birti um eigin upplifun af stafrænu kynferðisofbeldi. „Þá myndaðist eftirspurn eftir þessum myndum aftur,“ segir Hulda. Á þeim tímapunkti skildi hún loks að svona myndir hverfa aldrei. „Þetta endar aldrei ekki einu sinni eftir andlát. Það er ofboðslega yfirþyrmandi tilfinning.“
Tinna Ingólfsdóttir birti grein um reynslu sína árið 2014. Mynd/Aðsend
Varð fyrir aðkasti á göngum skólans Tinna var aðeins þrettán ára þegar hún var fyrst beðin um að senda nektarmyndir af sér. Hún var einmana, óörugg og fórnarlamb eineltis og hélt að maðurinn bak við skjáinn vildi vera vinur hennar. Hún sendi þessum huldumanni því myndir af sér og hélt áfram að senda myndir til slíkra manna þar til hún varð fimmtán ára. „Ég gaf engum þessara manna leyfi til að áframsenda þessar myndir, eða setja þær fyrir allra augu á internetið. Ég hélt að ég væri að gera þeim persónulegan greiða,“ sagði Tinna í greininni sem hún birti árið 2014.
„Ég fékk að heyra komment eins og „Gaman að sjá þig í fötum!“ nánast daglega.“
Þrátt fyrir það fóru myndirnar í dreifingu árið 2007. Þá var hún á fyrsta ári í Menntaskólanum á Akureyri og varð fyrir miklu aðkasti vegna myndanna. „Ég fékk að heyra komment eins og „Gaman að sjá þig í fötum!“ nánast daglega,“ sagði Tinna í greininni.
Ætlaði að ganga í sjóinn Tinna lét foreldra sína aldrei vita hvað var að gerast og telur Hulda að vinkona hennar hafi ekki litið á það sem raunverulegan valkost að biðja um hjálp. Árið 2008 var nektarmyndum af Tinnu síðan rennt inn um dyralúgu heima hjá henni og foreldrum hennar í ómerktu umslagi. Þann dag komst fjölskyldan loks að því sem var að gerast í lífi dóttur þeirra. „Ég hljóp berfætt niður götuna og ætlaði að fleygja mér út í sjó." „Ég hljóp berfætt niður götuna og ætlaði að fleygja mér út í sjó, en pabbi minn náði mér við endann á henni,“ skrifaði Tinna um daginn sem bréfið barst. Hún upplifði mikla skömm og bjóst við að vera ávítuð fyrir slæmar ákvarðanir sínar. „Mér hafði aldrei nokkurn tímann dottið í hug að ég hefði orðið fyrir einhvers konar misnotkun,“ sagði Tinna.
Allar myndir sem til eru af Tinnu á netinu voru teknar áður en hún varð 15 ára. Mynd/Aðsend
Greindist með áfallastreituröskun Tinna glímdi við öll einkenni áfallastreituröskunar en það tók hana níu ár að fá rétta greiningu. „Tæplega tveimur mánuðum fyrir andlátið fékk hún loks greiningu en hún náði aldrei að vinna í henni.“ Ofbeldið hafði gríðarleg áhrif á líf Tinnu jafnvel löngu eftir að hún var farin að vinna í sínum málum og líða betur. „Hún lenti reglulega í því að vel meinandi fólk benti henni á að verið væri að biðja um myndir af henni á síðum á borð við Chansluts,“ segir Hulda. „Það ýfði upp sárin í hvert skipti og henni fannst ekki gaman að vita að hún væri eitthvað sem rætt væri um í þessum heimi.“ Helst hefði hún viljað sleppa við allar tilkynningar um slíkt.
„Henni fannst ekki gaman að vita að hún væri eitthvað sem rætt væri um í þessum heimi.“
Hulda kveðst vera viss um að Tinna hefði haldið áfram að berjast fyrir málefnum þeirra sem lenda í ofbeldi af þessu tagi. Hún telur einnig löngu tímabært að viðhorfsbreyting verði á því hvernig litið er á nektarmyndir í samfélaginu. Vandamálið séu ekki myndirnar heldur viðbrögðin við þeim. „Ef ég tek af mér nektarmynd og sendi einhverjum þá er ég bara að gefa honum leyfi til að sjá hana. Líkt og ef ég myndi samþykkja að stunda kynlíf með þeirra manneskju. Ég er ekki þar með að gefa vinahópnum færi á mér.“ Aðalmálið sé að virða mörk og taka ábyrgð á því að slíkar myndir séu ekki misnotaðar.
Bylgja Hrönn Baldursdóttir, lögreglufulltrúi kynferðisbrotadeildar, segir Internetið engu gleyma. Fréttablaðið/Ernir
Erfitt að finna sökudólganna Á ári hverju setur fjöldi stúlkna sig í samband við lögreglu og leggur fram kæru eftir að nektarmyndum af þeim er dreift í þeirra óþökk. Bylgja Hrönn Baldursdóttir, lögreglufulltrúi kynferðisbrotadeildar, segir að það sé ætíð flókið að takast á við slík mál. „Þetta er rosalega erfitt í framkvæmd en það er réttur þeirra sem brotið er gegn að leggja fram kæru. Svo er að það okkar að finna sökudólginn,“ segir Bylgja. „Það gengur ekki alltaf en það er stundum hægt. Þetta er helsta leiðin.“ „Með því fyrsta sem við gerum í þeim málum er að setja okkur í samband við þá sem stjórna síðunum þar sem myndirnar eru hýstar og reyna að loka þeim eða fá stjórnendur til að fjarlægja myndirnar.“ Fallist stjórnendur á það reynir lögregla að fá IP tölu og rekja hana til þess notenda sem hefur dreift myndunum. „Það gengur ekki alltaf en það er stundum hægt. Þetta er helsta leiðin.“ Síður opna jafnharðan og þeim er lokað Það er nánast alfarið í höndum þeirra sem hýsa vefsíðurnar og spjallþræðina hvort lögreglu takist að hafa uppi á þeim seka, hvort þeir vilji vinna með lögreglu eða ekki. Í þeim tilvikum þegar síður eru sérstaklega settar upp til að dreifa nektarmyndum segir Bylgja að það sé nokkuð óhætt að áætla að ekki sé hægt að búast við miklu samvinnuþýði. „Eigendur slíkra léna eru ekki þeir viljugustu.“ Síðurnar sem hýsa umrætt efni eru einnig hýstar um allan heim svo það fer eftir lögum í hverju landi fyrir sig hversu flókið það er að láta loka síðunum.
„Ég get eiginlega fullyrt að það sem fer í dreifingu á netið er ekki að fara þaðan.“
Í þeim tilvikum sem allt gengur upp viðurkennir Bylgja að oftar en ekki endi málið þannig að myndirnar skjóti upp kollinum annarstaðar þar sem nýjar síður opni jafnharðan og eldri síðunum er lokað. „Það er erfiðara heldur en að segja það að stöðva eða koma í veg fyrir svona brot.“ Sem betur fer kemur það þó fyrir að lögreglan þurfi ekki mikil gögn til að finna einstaklinginn að baki dreifingu myndanna. Það sé þó ívið flóknara að taka myndirnar úr dreifingu. „Ég get eiginlega fullyrt að það sem fer í dreifingu á netið er ekki að fara þaðan.“
Netið gleymir engu Bylgja segir að eina ráðið sé að láta engan fá nektarmyndir til að byrja með. „Það er kannski varnaðarráð fyrir fólk að þegar maður sendir eitthvað frá sér, hvort sem það er mynd eða ummæli, þá verður það á alnetinu um alla tíð. Það er einmitt það sem fólki sem verður fyrir brotunum finnst verst.“ Ætíð er þó hvatt til að brotaþolar slíks ofbeldis leiti til lögreglu. „Það á ekki að draga úr fólki viljan til að koma til okkar þó við getum ekki endilega fjarlægt myndirnar.“
„Þetta er á alnetinu um alla tíð. Það er einmitt það sem fólki sem verður fyrir brotunum finnst verst.“
Bylgja tekur undir að það vanti sárlega forvarnir og fræðslu þannig börnum og foreldrum sé gerð grein fyrir hættunum. Hún ítrekar líka þörfina til að breyta hegningarlögum um þessi mál og það helst í gær. Refsingin fyrir vörslu á barnaníðsefni sé til að mynda allt of lág og þeir seku fái oft sekt frekar en fangelsisdóm. „Það er orðið svo ofboðslega algengt í dag að menn séu að dreifa myndum af börnum sem sýnd eru á kynferðislegan hátt.“ Sérstakar síður þar sem álíka myndir ganga milli manna spretta upp jafnóðum og þeim er lokað og á Íslandi. Á einni síðunni tíðkast að biðja um nektarmyndir af stúlkum, sem sumar hverjar eru ekki nema tólf ára gamlar. Þar myndast einnig iðulega umræður á lægsta plani þar sem lygum og uppspuna um ungar stúlkur er dreift.
Svanhvít Anna Brynjudóttir hefur tvisvar sinnum lent í því að beðið sé um nektarmyndir af henni á þess til gerðri síðu.
Nafnlausar beiðnir Svanhvít Anna Brynjudóttir hefur tvisvar sinnum lent í því að beðið sé um nektarmyndir af henni á slíkri síðu, í fyrsta skipti þegar hún var aðeins sextán ára gömul. „Ég frétti af því frá vinkonu minni að myndir frá Instagram síðunni minni hefðu verið settar þarna inn og að einhver væri að óska eftir nektarmyndum,“ segir Svanhvít. Notandinn sem falaðist eftir myndunum kom ekki fram undir nafni en birti þó fullt nafn Svanhvítar ásamt myndunum af henni. Athugasemdirnar sem voru settar undir myndina af Svanhvítu voru illkvittnar og óviðeigandi. Notendur síðunnar vanda yfirleitt ekki orðfar sitt gagnvart konum og eru stúlkur undir lögaldri þar engin undantekning. „Ég ákvað að reyna að líta framhjá þessum athugasemdum þar sem þær segja mun meira um manneskjuna á bak við skjáinn en nokkurn tímann mig.“
Óskað var eftir nektarmyndum af Svanhvíti Önnu Brynjudóttur í hennar óþökk á þess til gerðri síðu. Mynd/Aðsend
Löglegt en siðlaust Svanhvít hefur aldrei sent nektarmyndir af sér á neti „Ég fékk þau svör frá stelpum sem hafa lent í þessu áður að það sé ekkert hægt að gera í málinu.“ Það sé óþægilegt að vita að einhver sé að leita af slíku efni af henni. „Það kemur enginn fram undir nafni og þess vegna líður manni illa að vita ekki hvort þetta sé einhver sjúkur einstaklingur út í bæ eða jafnvel einhver vinur manns. Maður veit bara ekki neitt.“
„Ég fékk þau svör frá stelpum sem hafa lent í þessu áður að það sé ekkert hægt að gera í málinu.“
Í fyrsta skiptið sem mynd var birt af henni á síðunni spurðist Svanhvít fyrir um hvað væri hægt að gera í slíkum málum. „Ég fékk þau svör frá stelpum sem hafa lent í þessu áður að það sé ekkert hægt að gera í málinu.“ Þetta staðfestir Bylgja og segir ekkert banna fólki að biðja um nektarmyndir þrátt fyrir að vissulega sé siðlaust að gera það í óþökk fólks. „Það er bannað með lögum að dreifa myndum en ekki óska eftir þeim.“ Hún segir Svanhvíti því miður ekki vera eina tilfellið og fjöldi stúlkna lendi í því að beðið sé um nektarmyndir af þeim á ákveðnum síðum án þess að þær viti af því. Svanhvít segir ljóst að til ættu að vera reglur um álíka síður þannig hægt væri í það minnsta að sækja eiganda lénsins saka. „Ég skil ekki af hverju það er ekki löngu búið að taka þetta niður.“
María Rún Bjarnardóttir, höfundur nýs frumvarps um kynferðislega friðhelgi, segir núverandi lög ekki ná utan um stafræn brot. Mynd/Aðsend
Gapandi glufa í hegningarlögum Afleiðingar brota af þessu tagi hafa í meirihluta tilvika haft töluvert alvarlegri afleiðingar fyrir þolendur en gerendur að mati Maríu, höfundur nýs frumvarps um kynferðislega friðhelgi. Lögin hafi hingað til ekki fjallað sérstaklega um stafrænt kynferðisofbeldi en stuðst hafi verið við greinar um blygðunarsemi og barnaníð þess í stað. Mikið er ábótavant í þeim ákvæðum að mati Maríu. Í ákvæði 209. greinar hegningarlaga kemur fram að hámarksrefsing fyrir brot gegn blygðunarsemi séu fjögurra ára fangelsisvist. Hámarksrefsing fyrir að afla sér eða hafa í vörslu sinni efni sem sýnir börn á kynferðislegan hátt er hins vegar helmingi lægri. „Munurinn á refsiramma í þessum ákvæðum stenst enga skoðun og er beinlínis fáránlegur,“ segir María. „Þetta kemur til vegna þess að árið 2007 var kynferðisafbrotakaflinn endurskoðaður en bara sá hluti kaflans sem snýr að brotum gegn einstaklingum.“ Ákvæði um blygðunarsemi er hins vegar flokkað með brot gegn almenningi frekar en einstaklingi.
„Munurinn á refsiramma í þessum ákvæðum stenst enga skoðun og er beinlínis fáránlegur.“
Lögin skrifuð í kringum flassara „Þar var helst verið að huga að því að sækja karla sem voru að opna frakkana sína úti á götu til saka,“ segir María. „Orðalagið í þessum lagaákvæðum er líka svo gallað. Það er talað um að særa fólk með „lostafullu athæfi“ sem er náttúrulega úr öllum takti við nútímann.“ Til að dæmi sé tekið segir María að óumbeðin typpamynd gæti fallið undir blygðunarsemisbrot en séu myndirnar sendar ítrekað sé hægt að túlka það sem kynferðislega áreitni. „Það þýðir að refsiramminn lækkar með auknum fjölda mynda, þar sem blygðunarsemisbrotið er að hámarki fjögur ár en kynferðisleg áreitni er bara tvö ár.“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi Maríu í síðustu viku. Fréttablaðið/Sigtryggur
Stuðst við lög síðan á nítjándu öld Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi Maríu í síðustu viku og er það nú til meðferðar hjá þinginu. Þar er meðal annars lagt til að breyta ákvæðinu um blygðunarsemi og lostugt athæfi. Ákvæðið ber þess merki að hafa ekki verið efnislega endurskoðuð síðan Ísland fékk sín fyrstu hegningarlög árið 1869 að mati Maríu. Núverandi hegningarlög Íslands eru frá árinu 1940 en í greinargerð frá því ári kemur fram að umrætt ákveði sé hið sama.
„Ákvæðið fjallar um brot sem fyrst og fremst eiga sér stað á netinu en er efnislega frá 19. öld,
„Ákvæðið fjallar um brot sem fyrst og fremst eiga sér stað á netinu en er efnislega frá 19. öld,“ segir María. Löggjöfin eins og hún er nái því mjög illa um stafræn brot og áreiti á netinu. „Þetta er ein af ástæðum þess að það er nauðsynlegt að stíga inn í þessi mál.“ Refsingar breyti ekki viðhorfinu Samkvæmt nýja frumvarpinu getur sá sem dreifir nektarmyndum eða myndböndum af öðrum í leyfisleysi átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi sé það gert af ásetningi. Miðað við frumvarpið er ekki aðeins sá sem upphaflega dreifði mynd eða efni ábyrgur heldur einnig aðrir sem kunna að dreifa því áfram. Geta því margir óskyldir aðilar verið brotlegir gagnvart sömu manneskju. Ásetningurinn skiptir líka miklu máli, það er hvort viðkomandi dreifi efni vísvitandi til ákveðinna aðila til að valda skaða.
„Refsingarnar eru í dag annaðhvort bara fangelsi eða bætur og svo þegar það eru ungir krakkar er hægt að nota sáttamiðlun. Það eru engin önnur úrræði og vantar svigrúm í refsikafla laganna,“ segir María. Í lögunum sé kynferðisbrotum raðað eftir alvarleika þar sem nauðgun er efst og blygðunarsemisbrot neðst. „Þegar vísað er til neðriskalans er að finna fjölmörg brot sem hafa gríðarlega langvarandi og þungbærar afleiðingar líkt og gerist með dreifingu á nektarmyndum.“ Flestir þeirra sem fá dóm fyrir stafrænt kynferðisbrot eru dæmdir í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða miskabætur í kringum 250 þúsund krónur að sögn Maríu. „Ég er sannfærð um að slík refsing sé ekki til þess fallin til að breyta viðhorfi til þessara brota.“ Það ættu að vera virkari úrræði í boði. Það sé þó ekki hægt að bjóða upp á neitt slíkt nema hegningarlögin séu endurskoðuð í heild sinni.
„Ég er sannfærð um að slík refsing sé ekki til þess fallin til að breyta viðhorfi til þessara brota.“
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, höfundur frumvarps um barnaníð, vill hækka hámarksrefsingu í sex ár. Fréttablaðið/Ernir
Haldist í hendur við frumvarp um barnaníð María segir mikilvægt að frumvarpið um kynferðislega friðhelgi sé afgreitt samhliða frumvarpi um barnaníðsefni svo ekki myndist gloppur milli ákvæða. „Það er algerlega hætta á því að þarna myndist holur líkt og er að finna í núverandi hegningarlögum,“ segir María. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, höfundur frumvarps um barnaníð, tekur í sama streng og vonast til að horft sé á tengslin milli þessara ákvæða. „Ég held að það væri málaflokknum og brotaþolum í þessum málaflokki mjög til góða ef þessi tvö mál yrðu afgreidd saman og yrðu að lögum á sama tíma.“ Þorbjörg mælti í síðustu viku fyrir frumvarpi sínu þar sem lagt er til að hámarksrefsing fyrir að dreifa barnaníðsefni verði hækkuð úr tveggja ára fangelsi í sex ár fyrir stórfelld brot. „Þetta ákvæði situr dálítið eftir og það er eins og það vanti samræmi í það með hvaða augum þessi brot eru litin.“ Hún bendir á að refsirammi Norðurlandanna sé mun þyngri en hérlendis og rími við hennar tillögur um hámarksrefsingu.
„Það sem mér finnst stundum gleymast er að þegar barnaníðsefni finnst í tölvu hjá manneskju þá er verið að fremja brot á því barni sem er í myndefninu."
Dökka hlið tækniþróunarinnar „Það hafa orðið breytingar á þessum brotum á síðustu árum og þau hafa færst töluvert í aukanna,“ segir Þorbjörg. Það sé ein af dökku hliðum tækniþróunarinnar. Auðveldara sé að nálgast ógrynni af ólöglegu efni og óska eftir tilteknum brotum á þess gerðum spjallsíðum. „Það sem mér finnst stundum gleymast er að þegar barnaníðsefni finnst í tölvu hjá manneskju þá er verið að fremja brot á því barni sem er í myndefninu. Það er síðan viðbótarbrot að þetta efni fær gígantíska útbreiðslu á netinu.“ Brotið verði iðulega skipti- eða söluvara milli manna.
Ekki má vanmeta tengslin milli þess að horfa á barnaníðs efni og að brjóta gegn börnum að mati Þorbjargar. Fréttablaðið/Getty
Tengsl milli áhorfs og afbrota „Þriðji punkturinn er síðan sá að það er þekkt að svona efni finnist í fórum þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir að misnota barn kynferðislega.“ Ekki megi vanmeta tengslin á milli þess að horfa á slíkt efni og að brjóta gegn börnum. „Maður heyrir stundum talað um að menn sem horfa á barnaníðsefni myndu sjálfir aldrei brjóta gegn barni. Það er ekki endilega alltaf satt og þó að það gerist ekki í hundrað prósentum tilvika eru tengsl þarna á milli.“ Þetta sjáist skýrast þegar kynferðisbrot gegn börnum séu pöntuð af netinu.
„Maður heyrir stundum talað um að menn sem horfa á barnaníðsefni myndu sjálfir aldrei brjóta gegn barni. Það er ekki endilega alltaf satt."
Frumvarp Þorbjargar er nú til umræðu á Alþingi og kveðst hún vera bjartsýn um að það geti orðið að lögum. „Ég hafði samband við þingmenn um stuðning og það eru meðflutningsmenn á þessu máli í öllum flokkum. Ég er hins vegar þingmaður í minnihluta og því miður er það þannig að þeim málum vegnar ekki alltaf jafn vel og stjórnarmálunum.“ Risastórt skref í rétta átt Rebekka Ellen fangar nýju frumvörpunum og segir að um nauðsynlega breytingu sé að ræða. „Loksins eru að koma einhver úrræði fyrir þá sem verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi og dreifingu á myndefni án samþykkis.“ Verði frumvörpin samþykkt geti fórnarlömb loks sótt sér lagaleg úrræði. „Sem er eitthvað sem ég gat ekki á mínum tíma.,“ segir Rebekka. „Þetta er risastórt skref fyrir okkar samfélag.“
Comments