top of page

Þol­endur eltir út yfir gröf og dauða

Updated: Dec 16, 2020


Börn og full­orðnir sem hafa orðið fyrir barðinu á staf­rænu kyn­ferðis­of­beldi og barna­níð gjalda fyrir það alla ævi. Fórnar­lömb lýsa því að heilu bæjar­fé­lögin hafi fyrir­vara­laust for­dæmt þau og að beðið væri um nektar­myndir af börnum eftir að þau hefðu verið jörðuð. Engin á­kvæði í hegningar­lögum ná utan um þessi brot. Málum sem varða stafrænt kyn­ferðis­of­beldi og barna­níð hefur fjölgað gríðar­lega á borði lög­reglu á síðustu árum. Lög­regla segir rann­sóknir hafa sýnt fram á að eitt af hverjum fimm börnum sendi nektar­myndir af sjálfum sér, sum hver ekki nema sjö ára gömul. Þegar kemur að því að sækja ein­stak­linga til saka fyrir að dreifa ó­lög­legu efni á borð við nektar­myndir af börnum og full­orðnum hefur hins vegar nánast ekkert breyst á síðustu ára­tugum. Engar greinar í hegningar­lögum eru til þess fallnar að ná utan um staf­ræn brot og blasa gapandi glufur milli á­kvæða um há­marks­refsingu fyrir slík brot. „Af­leiðingar svona brota hafa í flestum til­vikum einungis haft al­var­legar af­leiðingar fyrir þol­endur, ekki ger­endur,“ segir lög­fræðingurinn María Rún Bjarnar­dóttir, höfundur nýs frum­varps um kyn­ferðis­lega frið­helgi. Há­marks­refsing sé of lág og úr­ræði allt of fá. Allt bæjar­fé­lagið vissi Rebekka Ellen þekkir það á eigin skinni en þegar hún var þrettán ára sendi hún nektar­myndir af sér á jafn­aldra sinn í gegnum Snapchat. Skömmu síðar komst hún að því að drengurinn hafði deilt myndunum með fé­lögum sínum og fréttirnar voru ekki lengi að berast um litla bæjar­fé­lagið þar sem hún var bú­sett. „Allir sem ég þekkti höfðu frétt af þessu, bæði innan skólans og utan,“ segir Rebekka, sem kom nýlega fram í þætti Kompás. „Ég hélt að ég gæti byrjað upp á nýtt þar og að þessi reynsla væri grafin og gleymd.“ Hún kenndi sjálfri sér um það sem hafði komið fyrir og bar harm sinn í hljóði í þrjú ár. Í til­raun til að komast undan orð­rómunum og pískrinu í bæjar­fé­laginu flutti hún til föður síns sem bjó í Dan­mörku. Þar dvaldi hún í um eitt ár áður en hún flutti aftur til Ís­lands og hóf nám í mennta­skóla í Reykja­vík. „Ég hélt að ég gæti byrjað upp á nýtt þar og að þessi reynsla væri grafin og gleymd.“ Allt kom fyrir ekki. Myndirnar fóru aftur í dreifingu og höfðu nú dúkkað upp á klám­síðum og síðum á borð við Chansluts. „Það voru ó­trú­lega mikil von­brigði að upp­götva að það væri ekki hægt að komast undan þessu og þurfa að upp­lifa hvað krakkar á þessum aldri geta verið and­styggi­legir.“ Rebekka Ellen var þrettán ára þegar nektarmyndum af henni var dreift í bæjarfélaginu þar sem hún bjó. Fréttablaðið/Ernir Enginn rétti út hjálpar­hönd Á þessum tíma hafði Rebekka enn ekki sagt neinum frá því sem henti eða hlotið neina að­stoð. Þegar myndirnar voru settar á klám­síðu fengu for­eldrar hennar fyrst veður af málinu. „Mín upp­lifun var að for­eldrar mínir hafi verið síðastir til að vita þetta í bæjar­fé­laginu,“ segir Rebekka. Aðrir for­eldrar í skólanum höfðu heyrt af málinu en ekkert sagt. „Þeir for­eldrar hefðu átt að hafa sam­band við for­eldra mína, skóla eða yfir­völd. Ef ég set mig í spor þrettán ára Rebekku þá finnst mér að ein­hver hefði átt að vera nógu full­orðin til að koma mér til bjargar, en það gerðist ekki.“ Hún segir að slúður berist gjarnan síðast til þeirra sem það fjallar um, ekki síst í litlum bæjar­fé­lögum. „Það var þannig í þessu til­viki og ég skil bara ekki að engum hafi dottið í hug að bregðast við.“ Þegar for­eldrar Rebekku komust að því sem hafði verið að gerast fóru loks hjólin að snúast. Rebekka hlaut við­eig­andi hjálp hjá sál­fræðingi og farið var með málið til lög­reglu. „Ég fór með lög­manninum mínum til lög­reglunnar í skýrslu­töku og ég man að strákurinn sem dreifði myndunum fór í skýrslu­töku á undan mér.“ „Ein­hver hefði átt að vera nógu full­orðin til að koma mér til bjargar, en það gerðist ekki.“ Ekkert hægt að gera Að lokinni skýrslu­töku tók við margra mánaða bið. Á endanum komst lög­regla að þeirri niður­stöðu að ekki yrði gefin út á­kæra. „Ég held að við höfum kært þá niður­stöðu tvisvar en það fór aldrei neitt lengra og engin á­kæra var gefin út,“ segir Rebekka al­var­leg. „Það er rosa­lega erfitt að ná svona málum í gegn og í mínu til­viki var ekkert hægt að gera.“ „Þremur árum eftir að ég fór í skýrslu­töku á­kvað ég að ég hafi gert mitt besta og hætti.“ Aldrei hafi neitt komið út úr málinu. „Það var lík­legast vegna þess að það eru ekki til nein á­kvæði í hegningar­lögum sem falla undir svona mál.“ Í ein­hverjum til­vikum hafi á­líka mál verið felld undir blygðunar­semi eða kyn­ferðis­lega á­reitni en það gerist sjaldan að á­kæra sé gefin út. „Það eru ekki til nein lög um þetta.“ Engin ákæra var gefin út í máli Rebekku. Fréttablaðið/Getty Myndirnar enn á flakki Ekki hefur heldur tekist að ná myndunum af Rebekku niður. „Þegar myndirnar fóru inn á klám­síðu leituðum við til lög­reglu til að láta taka þær niður.“ Í ljós kom að síðan sem hýsti myndirnar var með er­lenda IP tölu og hvorki var hægt að taka síðuna niður né komast að því hvaða ein­staklingar voru að biðja um og dreifa myndunum. „Ég veit að lög­reglan hefur vitað af þessari síðu í mörg ár og hefur reynt að gera eitt­hvað í þessu en það virðist ekkert ganga.“ „Maður hefur enga stjórn á hlutunum og það er svo ó­þægi­legt að vita ekkert hvaða mann­eskjur standa þarna að baki." Það hafi verið erfitt að sætta sig við að myndirnar yrðu alltaf þarna. „Á tíma­bili upp­lifði ég kvíða á hverjum degi um að ein­hver myndi senda eitt­hvað á mig eða segja eitt­hvað um þetta.“ Iðu­lega fékk hún send skila­boð um að myndir af henni væru á hinni eða þessari síðunni eða að ein­hver væri að óska eftir þeim. „Maður hefur enga stjórn á hlutunum og það er svo ó­þægi­legt að vita ekkert hvaða mann­eskjur standa þarna að baki. Hverjir eru að biðja um þessar myndir?“ „Ég vildi óska þess að um­ræðan væri opnari og að það væru ein­hver úr­ræði í boði." Fréttablaðið/Ernir Sjö ára börn sendi nektar­myndir Rebekka segir að það vanti sár­lega for­vörn um mál­efni af þessu tagi. „Rann­sóknir sýna að allt niður í sjö ára börn séu að senda nektar­myndir af sér þannig að þetta er sam­tal sem þarf að eiga sér stað mjög snemma.“ Allir geti lent í slíkri reynslu. „Ég vildi óska þess að um­ræðan væri opnari og að það væru ein­hver úr­ræði í boði. Ég hvet alla til að tala um þetta og leita ein­hvers, ráð­gjafa í skóla, for­eldra, vin­konu eða bara ein­hvers sem maður treystir til að hjálpa manni“ „Mark­mið mitt er ekki að reyna að láta fólk hætta að senda nektar­myndir, það mun aldrei gerast." Sjálf stefnir hún að því að búa til fræðslu fyrir börn og for­eldra í grunn­skólum og fé­lags­mið­stöðvum. „Mark­mið mitt er ekki að reyna að láta fólk hætta að senda nektar­myndir, það mun aldrei gerast, heldur bara að það sé með­vitað um hvað geti gerst og af­leiðingarnar sem því miður fylgja manni út lífið núna.“Hulda Hólmkelsdóttir segir bestu vinkonu sína, Tinnu, hafa þurft að ganga í gegnum skelfilegar þrekraunir. Mynd/Aðsend

Stöðug ógn Hulda Hólm­kels­dóttir segir sögu bestu vin­konu sinnar, Tinnu Ingólfs­dóttur heitinnar, vera dæmi um hversu ó­svífin eftir­spurn sé eftir nektar­myndum af ungum stúlkum. Árið 2014 talaði Tinna í fyrsta skipti opin­ber­lega um staf­ræna kyn­ferðis­of­beldið sem hún hafði orðið fyrir. Mánuði síðar var hún bráð­kvödd á heimili sínu. „Ég hef verið að­standandi ein­stak­linga sem hafa orðið fyrir nauðgun en það hefur ekkert breytt lífi mínu jafn mikið og að vera að­standandi Tinnu í gegnum þar sem hún varð fyrir í sínu lífi,“ út­skýrir Hulda. „Staf­rænt of­beldi er stöðug ógn. Það er hvergi skjól frá því og ein­hver getur fyrir­vara­laust rekist á þetta hvar og hve­nær sem er og sent á þig.“

„Það var enn­þá verið að biðja um nektar­myndir af henni eftir að við vorum búin að jarða hana.“

Báðu um myndir eftir jarðar­förina Þessa til­finningu upp­lifði Hulda sjálf eftir and­lát Tinnu. „Það næsta sem ég get komist að því að setja mig í fót­spor hennar er þegar ég fékk á­bendingu um að það væri enn­þá verið að biðja um nektar­myndir af henni eftir að við vorum búin að jarða hana.“ „Ég fékk á­bendingu um að það væri enn­þá verið að biðja um nektar­myndir af henni eftir að við vorum búin að jarða hana.“ Fjallað var um and­lát Tinnu í fjöl­miðlum enda hafði hún ný­lega vakið at­hygli fyrir grein sem hún birti um eigin upp­lifun af staf­rænu kyn­ferðis­of­beldi. „Þá myndaðist eftir­spurn eftir þessum myndum aftur,“ segir Hulda. Á þeim tíma­punkti skildi hún loks að svona myndir hverfa aldrei. „Þetta endar aldrei ekki einu sinni eftir and­lát. Það er of­boðs­lega yfir­þyrmandi til­finning.“

Tinna Ingólfsdóttir birti grein um reynslu sína árið 2014. Mynd/Aðsend

Varð fyrir að­kasti á göngum skólans Tinna var að­eins þrettán ára þegar hún var fyrst beðin um að senda nektar­myndir af sér. Hún var ein­mana, ó­örugg og fórnar­lamb ein­eltis og hélt að maðurinn bak við skjáinn vildi vera vinur hennar. Hún sendi þessum huldu­manni því myndir af sér og hélt á­fram að senda myndir til slíkra manna þar til hún varð fimm­tán ára. „Ég gaf engum þessara manna leyfi til að á­fram­senda þessar myndir, eða setja þær fyrir allra augu á inter­netið. Ég hélt að ég væri að gera þeim per­sónu­legan greiða,“ sagði Tinna í greininni sem hún birti árið 2014.

„Ég fékk að heyra komment eins og „Gaman að sjá þig í fötum!“ nánast dag­lega.“

Þrátt fyrir það fóru myndirnar í dreifingu árið 2007. Þá var hún á fyrsta ári í Mennta­skólanum á Akur­eyri og varð fyrir miklu að­kasti vegna myndanna. „Ég fékk að heyra komment eins og „Gaman að sjá þig í fötum!“ nánast dag­lega,“ sagði Tinna í greininni.

Ætlaði að ganga í sjóinn Tinna lét for­eldra sína aldrei vita hvað var að gerast og telur Hulda að vin­kona hennar hafi ekki litið á það sem raun­veru­legan val­kost að biðja um hjálp. Árið 2008 var nektar­myndum af Tinnu síðan rennt inn um dyralúgu heima hjá henni og for­eldrum hennar í ó­merktu um­slagi. Þann dag komst fjöl­skyldan loks að því sem var að gerast í lífi dóttur þeirra. „Ég hljóp ber­fætt niður götuna og ætlaði að fleygja mér út í sjó." „Ég hljóp ber­fætt niður götuna og ætlaði að fleygja mér út í sjó, en pabbi minn náði mér við endann á henni,“ skrifaði Tinna um daginn sem bréfið barst. Hún upp­lifði mikla skömm og bjóst við að vera á­vítuð fyrir slæmar á­kvarðanir sínar. „Mér hafði aldrei nokkurn tímann dottið í hug að ég hefði orðið fyrir ein­hvers konar mis­notkun,“ sagði Tinna.

Allar myndir sem til eru af Tinnu á netinu voru teknar áður en hún varð 15 ára. Mynd/Aðsend

Greindist með á­falla­streitu­röskun Tinna glímdi við öll ein­kenni á­falla­streitu­röskunar en það tók hana níu ár að fá rétta greiningu. „Tæp­lega tveimur mánuðum fyrir and­látið fékk hún loks greiningu en hún náði aldrei að vinna í henni.“ Of­beldið hafði gríðar­leg á­hrif á líf Tinnu jafn­vel löngu eftir að hún var farin að vinna í sínum málum og líða betur. „Hún lenti reglu­lega í því að vel meinandi fólk benti henni á að verið væri að biðja um myndir af henni á síðum á borð við Chansluts,“ segir Hulda. „Það ýfði upp sárin í hvert skipti og henni fannst ekki gaman að vita að hún væri eitt­hvað sem rætt væri um í þessum heimi.“ Helst hefði hún viljað sleppa við allar til­kynningar um slíkt.

„Henni fannst ekki gaman að vita að hún væri eitt­hvað sem rætt væri um í þessum heimi.“

Hulda kveðst vera viss um að Tinna hefði haldið á­fram að berjast fyrir mál­efnum þeirra sem lenda í of­beldi af þessu tagi. Hún telur einnig löngu tíma­bært að við­horfs­breyting verði á því hvernig litið er á nektar­myndir í sam­fé­laginu. Vanda­málið séu ekki myndirnar heldur við­brögðin við þeim. „Ef ég tek af mér nektar­mynd og sendi ein­hverjum þá er ég bara að gefa honum leyfi til að sjá hana. Líkt og ef ég myndi sam­þykkja að stunda kyn­líf með þeirra mann­eskju. Ég er ekki þar með að gefa vina­hópnum færi á mér.“ Aðal­málið sé að virða mörk og taka á­byrgð á því að slíkar myndir séu ekki mis­notaðar.

Bylgja Hrönn Baldurs­dóttir, lög­reglu­full­trúi kyn­ferðis­brota­deildar, segir Internetið engu gleyma. Fréttablaðið/Ernir

Erfitt að finna söku­dólganna Á ári hverju setur fjöldi stúlkna sig í sam­band við lög­reglu og leggur fram kæru eftir að nektar­myndum af þeim er dreift í þeirra ó­þökk. Bylgja Hrönn Baldurs­dóttir, lög­reglu­full­trúi kyn­ferðis­brota­deildar, segir að það sé ætíð flókið að takast á við slík mál. „Þetta er rosa­lega erfitt í fram­kvæmd en það er réttur þeirra sem brotið er gegn að leggja fram kæru. Svo er að það okkar að finna söku­dólginn,“ segir Bylgja. „Það gengur ekki alltaf en það er stundum hægt. Þetta er helsta leiðin.“ „Með því fyrsta sem við gerum í þeim málum er að setja okkur í sam­band við þá sem stjórna síðunum þar sem myndirnar eru hýstar og reyna að loka þeim eða fá stjórn­endur til að fjar­lægja myndirnar.“ Fallist stjórn­endur á það reynir lög­regla að fá IP tölu og rekja hana til þess not­enda sem hefur dreift myndunum. „Það gengur ekki alltaf en það er stundum hægt. Þetta er helsta leiðin.“ Síður opna jafn­harðan og þeim er lokað Það er nánast al­farið í höndum þeirra sem hýsa vef­síðurnar og spjall­þræðina hvort lög­reglu takist að hafa uppi á þeim seka, hvort þeir vilji vinna með lög­reglu eða ekki. Í þeim til­vikum þegar síður eru sér­stak­lega settar upp til að dreifa nektar­myndum segir Bylgja að það sé nokkuð ó­hætt að á­ætla að ekki sé hægt að búast við miklu sam­vinnu­þýði. „Eig­endur slíkra léna eru ekki þeir viljugustu.“ Síðurnar sem hýsa um­rætt efni eru einnig hýstar um allan heim svo það fer eftir lögum í hverju landi fyrir sig hversu flókið það er að láta loka síðunum.

„Ég get eigin­lega full­yrt að það sem fer í dreifingu á netið er ekki að fara þaðan.“

Í þeim til­vikum sem allt gengur upp viður­kennir Bylgja að oftar en ekki endi málið þannig að myndirnar skjóti upp kollinum annar­staðar þar sem nýjar síður opni jafn­harðan og eldri síðunum er lokað. „Það er erfiðara heldur en að segja það að stöðva eða koma í veg fyrir svona brot.“ Sem betur fer kemur það þó fyrir að lög­reglan þurfi ekki mikil gögn til að finna ein­stak­linginn að baki dreifingu myndanna. Það sé þó ívið flóknara að taka myndirnar úr dreifingu. „Ég get eigin­lega full­yrt að það sem fer í dreifingu á netið er ekki að fara þaðan.“

Netið gleymir engu Bylgja segir að eina ráðið sé að láta engan fá nektar­myndir til að byrja með. „Það er kannski varnaðar­ráð fyrir fólk að þegar maður sendir eitt­hvað frá sér, hvort sem það er mynd eða um­mæli, þá verður það á al­netinu um alla tíð. Það er ein­mitt það sem fólki sem verður fyrir brotunum finnst verst.“ Ætíð er þó hvatt til að brota­þolar slíks of­beldis leiti til lög­reglu. „Það á ekki að draga úr fólki viljan til að koma til okkar þó við getum ekki endi­lega fjar­lægt myndirnar.“

„Þetta er á al­netinu um alla tíð. Það er ein­mitt það sem fólki sem verður fyrir brotunum finnst verst.“

Bylgja tekur undir að það vanti sár­lega for­varnir og fræðslu þannig börnum og for­eldrum sé gerð grein fyrir hættunum. Hún í­trekar líka þörfina til að breyta hegningar­lögum um þessi mál og það helst í gær. Refsingin fyrir vörslu á barna­níðs­efni sé til að mynda allt of lág og þeir seku fái oft sekt frekar en fangelsis­dóm. „Það er orðið svo of­boðs­lega al­gengt í dag að menn séu að dreifa myndum af börnum sem sýnd eru á kyn­ferðis­legan hátt.“ Sér­stakar síður þar sem á­líka myndir ganga milli manna spretta upp jafn­óðum og þeim er lokað og á Ís­landi. Á einni síðunni tíðkast að biðja um nektar­myndir af stúlkum, sem sumar hverjar eru ekki nema tólf ára gamlar. Þar myndast einnig iðu­lega um­ræður á lægsta plani þar sem lygum og upp­spuna um ungar stúlkur er dreift.

Svan­hvít Anna Brynju­dóttir hefur tvisvar sinnum lent í því að beðið sé um nektar­myndir af henni á þess til gerðri síðu.

Nafn­lausar beiðnir Svan­hvít Anna Brynju­dóttir hefur tvisvar sinnum lent í því að beðið sé um nektar­myndir af henni á slíkri síðu, í fyrsta skipti þegar hún var að­eins sex­tán ára gömul. „Ég frétti af því frá vin­konu minni að myndir frá Insta­gram síðunni minni hefðu verið settar þarna inn og að ein­hver væri að óska eftir nektar­myndum,“ segir Svan­hvít. Notandinn sem falaðist eftir myndunum kom ekki fram undir nafni en birti þó fullt nafn Svan­hvítar á­samt myndunum af henni. At­huga­semdirnar sem voru settar undir myndina af Svan­hvítu voru ill­kvittnar og ó­við­eig­andi. Not­endur síðunnar vanda yfir­leitt ekki orð­far sitt gagn­vart konum og eru stúlkur undir lög­aldri þar engin undan­tekning. „Ég á­kvað að reyna að líta fram­hjá þessum at­huga­semdum þar sem þær segja mun meira um mann­eskjuna á bak við skjáinn en nokkurn tímann mig.“

Óskað var eftir nektarmyndum af Svanhvíti Önnu Brynjudóttur í hennar óþökk á þess til gerðri síðu. Mynd/Aðsend

Lög­legt en sið­laust Svan­hvít hefur aldrei sent nektar­myndir af sér á neti „Ég fékk þau svör frá stelpum sem hafa lent í þessu áður að það sé ekkert hægt að gera í málinu.“ Það sé ó­þægi­legt að vita að ein­hver sé að leita af slíku efni af henni. „Það kemur enginn fram undir nafni og þess vegna líður manni illa að vita ekki hvort þetta sé ein­hver sjúkur ein­stak­lingur út í bæ eða jafn­vel ein­hver vinur manns. Maður veit bara ekki neitt.“

„Ég fékk þau svör frá stelpum sem hafa lent í þessu áður að það sé ekkert hægt að gera í málinu.“

Í fyrsta skiptið sem mynd var birt af henni á síðunni spurðist Svan­hvít fyrir um hvað væri hægt að gera í slíkum málum. „Ég fékk þau svör frá stelpum sem hafa lent í þessu áður að það sé ekkert hægt að gera í málinu.“ Þetta stað­festir Bylgja og segir ekkert banna fólki að biðja um nektar­myndir þrátt fyrir að vissu­lega sé sið­laust að gera það í ó­þökk fólks. „Það er bannað með lögum að dreifa myndum en ekki óska eftir þeim.“ Hún segir Svan­hvíti því miður ekki vera eina til­fellið og fjöldi stúlkna lendi í því að beðið sé um nektar­myndir af þeim á á­kveðnum síðum án þess að þær viti af því. Svan­hvít segir ljóst að til ættu að vera reglur um á­líka síður þannig hægt væri í það minnsta að sækja eig­anda lénsins saka. „Ég skil ekki af hverju það er ekki löngu búið að taka þetta niður.“


María Rún Bjarnar­dóttir, höfundur nýs frum­varps um kynferðislega friðhelgi, segir núverandi lög ekki ná utan um stafræn brot. Mynd/Aðsend

Gapandi glufa í hegningar­lögum Af­leiðingar brota af þessu tagi hafa í meiri­hluta til­vika haft tölu­vert al­var­legri af­leiðingar fyrir þol­endur en ger­endur að mati Maríu, höfundur nýs frum­varps um kyn­ferðis­lega frið­helgi. Lögin hafi hingað til ekki fjallað sér­stak­lega um staf­rænt kyn­ferðis­of­beldi en stuðst hafi verið við greinar um blygðunar­semi og barna­níð þess í stað. Mikið er á­bóta­vant í þeim á­kvæðum að mati Maríu. Í á­kvæði 209. greinar hegningar­laga kemur fram að há­marks­refsing fyrir brot gegn blygðunar­semi séu fjögurra ára fangelsis­vist. Há­marks­refsing fyrir að afla sér eða hafa í vörslu sinni efni sem sýnir börn á kyn­ferðis­legan hátt er hins vegar helmingi lægri. „Munurinn á refsi­ramma í þessum á­kvæðum stenst enga skoðun og er bein­línis fá­rán­legur,“ segir María. „Þetta kemur til vegna þess að árið 2007 var kyn­ferðis­af­brota­kaflinn endur­skoðaður en bara sá hluti kaflans sem snýr að brotum gegn ein­stak­lingum.“ Á­kvæði um blygðunar­semi er hins vegar flokkað með brot gegn al­menningi frekar en ein­stak­lingi.

„Munurinn á refsi­ramma í þessum á­kvæðum stenst enga skoðun og er bein­línis fá­rán­legur.“

Lögin skrifuð í kringum flassara „Þar var helst verið að huga að því að sækja karla sem voru að opna frakkana sína úti á götu til saka,“ segir María. „Orða­lagið í þessum laga­á­kvæðum er líka svo gallað. Það er talað um að særa fólk með „losta­fullu at­hæfi“ sem er náttúru­lega úr öllum takti við nú­tímann.“ Til að dæmi sé tekið segir María að ó­um­beðin typpa­mynd gæti fallið undir blygðunar­semis­brot en séu myndirnar sendar í­trekað sé hægt að túlka það sem kyn­ferðis­lega á­reitni. „Það þýðir að refsi­ramminn lækkar með auknum fjölda mynda, þar sem blygðunar­semis­brotið er að há­marki fjögur ár en kyn­ferðis­leg á­reitni er bara tvö ár.“

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra, mælti fyrir frum­varpi Maríu í síðustu viku. Fréttablaðið/Sigtryggur

Stuðst við lög síðan á ní­tjándu öld Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra, mælti fyrir frum­varpi Maríu í síðustu viku og er það nú til með­ferðar hjá þinginu. Þar er meðal annars lagt til að breyta á­kvæðinu um blygðunar­semi og lostugt at­hæfi. Á­kvæðið ber þess merki að hafa ekki verið efnis­lega endur­skoðuð síðan Ís­land fékk sín fyrstu hegningar­lög árið 1869 að mati Maríu. Nú­verandi hegningar­lög Ís­lands eru frá árinu 1940 en í greinar­gerð frá því ári kemur fram að um­rætt á­kveði sé hið sama.

„Á­kvæðið fjallar um brot sem fyrst og fremst eiga sér stað á netinu en er efnis­lega frá 19. öld,

„Á­kvæðið fjallar um brot sem fyrst og fremst eiga sér stað á netinu en er efnis­lega frá 19. öld,“ segir María. Lög­gjöfin eins og hún er nái því mjög illa um staf­ræn brot og á­reiti á netinu. „Þetta er ein af á­stæðum þess að það er nauð­syn­legt að stíga inn í þessi mál.“ Refsingar breyti ekki við­horfinu Sam­kvæmt nýja frum­varpinu getur sá sem dreifir nektar­myndum eða mynd­böndum af öðrum í leyfis­leysi átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi sé það gert af á­setningi. Miðað við frum­varpið er ekki að­eins sá sem upp­haf­lega dreifði mynd eða efni á­byrgur heldur einnig aðrir sem kunna að dreifa því á­fram. Geta því margir ó­skyldir aðilar verið brot­legir gagn­vart sömu mann­eskju. Á­setningurinn skiptir líka miklu máli, það er hvort við­komandi dreifi efni vís­vitandi til á­kveðinna aðila til að valda skaða.

„Refsingarnar eru í dag annað­hvort bara fangelsi eða bætur og svo þegar það eru ungir krakkar er hægt að nota sátta­miðlun. Það eru engin önnur úr­ræði og vantar svig­rúm í refsikafla laganna,“ segir María. Í lögunum sé kyn­ferðis­brotum raðað eftir al­var­leika þar sem nauðgun er efst og blygðunar­semis­brot neðst. „Þegar vísað er til neðriskalans er að finna fjöl­mörg brot sem hafa gríðar­lega lang­varandi og þung­bærar af­leiðingar líkt og gerist með dreifingu á nektar­myndum.“ Flestir þeirra sem fá dóm fyrir staf­rænt kyn­ferðis­brot eru dæmdir í þrjá­tíu daga skil­orðs­bundið fangelsi og til að greiða miska­bætur í kringum 250 þúsund krónur að sögn Maríu. „Ég er sann­færð um að slík refsing sé ekki til þess fallin til að breyta við­horfi til þessara brota.“ Það ættu að vera virkari úr­ræði í boði. Það sé þó ekki hægt að bjóða upp á neitt slíkt nema hegningar­lögin séu endur­skoðuð í heild sinni.

„Ég er sann­færð um að slík refsing sé ekki til þess fallin til að breyta við­horfi til þessara brota.“

Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, höfundur frum­varps um barna­níð, vill hækka hámarksrefsingu í sex ár. Fréttablaðið/Ernir

Haldist í hendur við frum­varp um barna­níð María segir mikil­vægt að frum­varpið um kyn­ferðis­lega frið­helgi sé af­greitt sam­hliða frum­varpi um barna­níðs­efni svo ekki myndist gloppur milli á­kvæða. „Það er al­ger­lega hætta á því að þarna myndist holur líkt og er að finna í nú­verandi hegningar­lögum,“ segir María. Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, höfundur frum­varps um barna­níð, tekur í sama streng og vonast til að horft sé á tengslin milli þessara á­kvæða. „Ég held að það væri mála­flokknum og brota­þolum í þessum mála­flokki mjög til góða ef þessi tvö mál yrðu af­greidd saman og yrðu að lögum á sama tíma.“ Þor­björg mælti í síðustu viku fyrir frum­varpi sínu þar sem lagt er til að há­marks­refsing fyrir að dreifa barna­níðs­efni verði hækkuð úr tveggja ára fangelsi í sex ár fyrir stór­felld brot. „Þetta á­kvæði situr dá­lítið eftir og það er eins og það vanti sam­ræmi í það með hvaða augum þessi brot eru litin.“ Hún bendir á að refsi­rammi Norður­landanna sé mun þyngri en hér­lendis og rími við hennar til­lögur um há­marks­refsingu.

„Það sem mér finnst stundum gleymast er að þegar barna­níðs­efni finnst í tölvu hjá mann­eskju þá er verið að fremja brot á því barni sem er í mynd­efninu."

Dökka hlið tækni­þróunarinnar „Það hafa orðið breytingar á þessum brotum á síðustu árum og þau hafa færst tölu­vert í aukanna,“ segir Þor­björg. Það sé ein af dökku hliðum tækni­þróunarinnar. Auð­veldara sé að nálgast ó­grynni af ó­lög­legu efni og óska eftir til­teknum brotum á þess gerðum spjall­síðum. „Það sem mér finnst stundum gleymast er að þegar barna­níðs­efni finnst í tölvu hjá mann­eskju þá er verið að fremja brot á því barni sem er í mynd­efninu. Það er síðan við­bótar­brot að þetta efni fær gígantíska út­breiðslu á netinu.“ Brotið verði iðu­lega skipti- eða sölu­vara milli manna.

Ekki má vanmeta tengslin milli þess að horfa á barnaníðs efni og að brjóta gegn börnum að mati Þorbjargar. Fréttablaðið/Getty

Tengsl milli á­horfs og af­brota „Þriðji punkturinn er síðan sá að það er þekkt að svona efni finnist í fórum þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir að mis­nota barn kyn­ferðis­lega.“ Ekki megi van­meta tengslin á milli þess að horfa á slíkt efni og að brjóta gegn börnum. „Maður heyrir stundum talað um að menn sem horfa á barna­níðs­efni myndu sjálfir aldrei brjóta gegn barni. Það er ekki endi­lega alltaf satt og þó að það gerist ekki í hundrað prósentum til­vika eru tengsl þarna á milli.“ Þetta sjáist skýrast þegar kyn­ferðis­brot gegn börnum séu pöntuð af netinu.

„Maður heyrir stundum talað um að menn sem horfa á barna­níðs­efni myndu sjálfir aldrei brjóta gegn barni. Það er ekki endi­lega alltaf satt."

Frum­varp Þor­bjargar er nú til um­ræðu á Al­þingi og kveðst hún vera bjart­sýn um að það geti orðið að lögum. „Ég hafði sam­band við þing­menn um stuðning og það eru með­flutnings­menn á þessu máli í öllum flokkum. Ég er hins vegar þing­maður í minni­hluta og því miður er það þannig að þeim málum vegnar ekki alltaf jafn vel og stjórnar­málunum.“ Risa­stórt skref í rétta átt Rebekka Ellen fangar nýju frum­vörpunum og segir að um nauð­syn­lega breytingu sé að ræða. „Loksins eru að koma ein­hver úr­ræði fyrir þá sem verða fyrir staf­rænu kyn­ferðis­of­beldi og dreifingu á mynd­efni án sam­þykkis.“ Verði frum­vörpin sam­þykkt geti fórnar­lömb loks sótt sér laga­leg úr­ræði. „Sem er eitt­hvað sem ég gat ekki á mínum tíma.,“ segir Rebekka. „Þetta er risa­stórt skref fyrir okkar sam­fé­lag.“

60 views0 comments

Comments


bottom of page